mán. 25.5.2009
Ný og betri leið til lausnar á vanda ríkisins - (Björn Valdimarsson Mbl. 25. maí '09)
"Formenn stjórnarflokkanna munu ..eiga fund með fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stöðugleikasáttmála..." segir í tengdri frétt.
Jú, jú! Þau vilja vel! En lesið hér grein fá almennum, íslenskum borgara sem ekki fer með fleipur dags daglega:
Grein í Mbl (bls 25) 25. maí '09:
Ný og betri leið til lausnar á vanda ríkisins.
NÚ VANTAR fé til að forða ríkinu frá niðurskurði og leysa vanda nýju bankanna og fjármagnseigenda. Ein leið sem ekki hefur verið talað um er að hækka vísitöluna handvirkt um 25%, þannig að ef vístölutryggðar skuldir heimila eru nú 1200 milljarðar króna þá hækka þær um 300 milljarða eða í 1500 milljarða. Hér væru þá komnar tekjur upp á 300 milljarða króna. Svo má hækka gengistryggð lán um 50% (það voru nú soddan fífl sem tóku þau að þau geta nú alveg borgað). Ef þessi lán standa nú í 800 milljörðum nást þar 400 milljarðar í tekjur. Samanlagt verða þetta tekjur upp á 700 milljarða króna sem nægja til að rétta af ríkishallann, leysa vanda nýju bankanna, hækka eignir lífeyrissjóðanna og hækka eignir fjármagnseigenda til að mæta tapi sem þeir hafa orðið fyrir vegna ónýtra peninga- og skuldabréfasjóða bankanna og tapaðra hlutabréfa.
Heimilin sem geta borgað eiga að sjálfsögðu að borga, þeir sem væla geta fengið greiðsluaðlögun. Jafnt skal yfir alla ganga og því er lagt til að miða við að allir verði búnir að greiða skuldir sínar þegar þeir hafa náð 200 ára aldri.
Ef einhverjir eru enn í vandræðum er boðin greiðsluaðlögun. Allir einfættir, tvíhöfða menn sem hafa verið atvinnulausir í 4 mánuði og hafa allar skuldir í skilum geta mætt á skrifstofu ráðdeildarsýslu ríkisins. Skrifstofan er til húsa á Lækjargötu 2, Hvammstanga, opið verður annan hvorn mánudag frá 9-10 fram til 30. maí en frá þeim tíma verður lokað vegna sumarleyfa til 30. september.
Með þessu móti geta Jóhanna, verndardýrlingur fjármagnseigenda og Steingrímur, talsmaður erlendra kröfuhafa, fullkomnað skjaldborgina um fjárhag sinna skjólstæðinga.
Mér finnst ég þurfa að taka það fram að framangreint er meint sem kaldhæðni og öfugmæli. Það er full ástæða til að geta þess sérstaklega því ráðamenn þjóðarinnar og stór hluti hennar virðist almennt vera skilningssljór. Það virðist mörgum erfitt að skilja að þær álögur sem lagðar hafa verið á skuldir landsmanna vegna stórkostlegrar vanhæfni bankamanna og athafna mafíósanna (stundum kallaðir auðjöfrar) í skjóli ríkisvaldsins síðustu ár eru ekki ásættanlegar og þær verður að leiðrétta.
Ef það verður ekki gert verður ekki nóg að mæta með búsáhöld á Austurvöll.
BJÖRN VALDIMARSSON,
hönnuður.
Fundað um stöðugleikasáttmála | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flott samlíking hjá honum. Ég er búin að hamra á þessu í allan vetur. Við eigum ekki að tala um niðurfellingu skulda, við eigum ekki að tala um afskriftir skulda heildur eigum við að tala um leiðréttingu á óréttmætum og röngum útreikningum.
Þessir útreikningar og forsendur þeirra eru sérhönnuð verkfæri stjórnvalda til þess að hlunnfara almenning.
Ef forsendur og útreikningar eru leiðréttir þýðir það tilfærslur milli lánadrottna og skuldara og kemur hvergi við pyngju skattgreiðenda.
Ég kalla stefnu (ef stefnu skildi kalla) núverandi ríkisstjórnar ölmusustjórnmál.
Það virðist vera markmiðið að koma hér sem mestu í skítinn og vera svo með einhverjar sértækar aðgerðir sem koma fáum að gagni.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.5.2009 kl. 20:56
Af hverju eru menn ekki stöðugt niðri á Austurvelli NÚNA - eins og í vetur! Það er næstum ekkert gert af viti.
Ekki er nóg að hafa félagshyggju ef hún er ekki stunduð í verki!!
breki (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 22:07
Og hvað eiga lánadrottnarnir svo að borga skuldurunum? Á að koma þeim í jafnstöðu eins og hún var fyrir hrun? Getur verið að skuldararnir hafi fengið allt of verðmætar krónur að láni og kaupgeta þeirra króna verið algerlega óraunhæf? Getur verið að verðbólgan á árinu 2008 hafi að e-u leyti komið lánunum í raunhæfara verð og að misgengið, sem í henni fólst, leiðréttist að e-u leyti á næstu árum?
Ég vil sjá tillögur tengdar þessari umræðu um hver á að borga hverjum, hve mikið og hver á að ákveða það.
Sigurbjörn Sveinsson, 25.5.2009 kl. 22:35
Fín grein hjá honum.....enda held ég að styttist í byltinguna
Hólmdís Hjartardóttir, 25.5.2009 kl. 22:43
Það skiptir í raun ekki máli í hvað var eitt. Vitlausir útreikningar eru vitlausir útreikningar hvort sem keypt er íbúð eða húsbíll.
Skuldarar voru ekki að fá of mikið fyrir krónuna enda sýnir það sig í því að verð eigna hefur hrunið.
Þeir sem hafa fengið of mikið eru bankarnir, fasteignabraskarar og þeir sem seldu lóðir.
Bankarnir töpuðu ekki á útlánum á innanlandsmarkað heldur fóru þeir í gjaldþrot vegna lausafjárstöðu.
Það þarf að leiðrétta stöðuna milli lánadrottna og skuldara og það verður bara að vera vandamál lánadrottna að leysta það því að þeir hafa verið að taka meira en þeim ber að fá.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.5.2009 kl. 22:49
Sæl Hlédís.
Það eru einmitt svona skrif sem mætti gera meira af að koma á prent, til þess að fólk "Fókuseri" á vitleysuna og ráðleysið sem er viðvarandi núna.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 07:16
Sæll, Sigurbjörn!
Ég ráðlegg þér að lesa greinar með tillögum um lausnir. Þær eru í Mbl. á hverjum degi. Í gær, 25. maí sá ég eina á bls 24. Björn Valdimarsson sem skrifar greinina hér að ofan skrifaði eina (ekki háðsádeilu!) í Mbl. nýlega og hlýtur hún að vera í greinasafni blaðsins. Mjög skýr rök og málefnalega fram sett.
Hlédís, 26.5.2009 kl. 10:03
Satt segir þú, Þórarinn!
Kveðja
Hlédís, 26.5.2009 kl. 10:04
Sæl og blessuð, Jakobína!
Furðulegt er að sjá blindu jafnaðar-stjórnarinnar á því, að leiðrétting lánaokursins er þjóðinni lífsnauðsyn.
Einu sinni enn spyr ég: Af hverju er ekki leitað aðstoðar hjá Gunnari Tómassyni, hagfræðingi?
Hlédís, 26.5.2009 kl. 10:10
Ég sé því miður hvorki skynsemina né húmorinn í grein Björns. Ég hlustaði á hagfræðing í gær, sem reynst hefur glöggur bæði á hagtölur og skáldskap og hann taldi að þeir, sem greitt hefðu af verðtryggðu láni 1990 - 2005, hefðu borgað um 1,5 % lægri raunvexti en þeir, sem hefðu haft óverðtryggð lán á sama tíma. Taldi hann ástandið svipað nú.
Ekki eru menn að biðja um óverðtryggðar vaxtagreiðslur niðurgreiddar eða með eignaupptöku lánveitandans?
Sigurbjörn Sveinsson, 26.5.2009 kl. 10:34
Stendur til að hrekja úr landi allt yngsta og best menntaða fólkið?
hulda (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 10:42
Ætli það ekki bara, hulda!
Erlendis getur það hugsanlega unnið sér nóg inn til að greiða okurlánin til íslensku nýbankanna. Gamlingjar og aðrir sem fastir eru í netinu hérlendis, ásamt farandverkamönnum, eiga svo væntanlega að koma atvinnulífshjólunum í gang fyrir eignarhaldsfélögin sem hirða auðlindirnar!
Hlédís, 26.5.2009 kl. 10:46
Ég ætla rétt að vona að það ástand verði hér aldrei aftur að fullyrðingin: Grædd er skulduð milljón verði sönn. Sú spilling og misrétti og þær kunningjagælur, sem því ástandi fylgdu voru viðurstyggilegar. Vandi okkar, sem við er að glíma, er að hér voru menn, sem höfðu að mottói: Grædd er stolin milljón og er það annar handleggur. Við þann vanda erum við öll að glíma því miður.
Sigurbjörn Sveinsson, 26.5.2009 kl. 11:35
Mér þykir þú skripla á skötunni, Sigurbjörn, ef telur greinina skrifaða í húmor. Hér er napurt háð á ferðinni. Um alvarlegt mál.
Dæmin sem þú tekur af "heppnaðri" verðtryggingu lána eru ekki frá því tímabili sem hækkaði höfuðstól þeirra lána sem nú hafa rænt marga Íslendinga aleigunni og vel það. Þú finnur engan hagfræðing sem afsannar það - bara nokkra sem telja að fórnarkostnaðurinn sé "ásættanlegur" til bjargar ríkisbönkunum. Svo eru aðrir sem telja þessa fórn vera blóðfórn, ekki sæmandi og mjög slæma hagfræði í þokkabót.
Hlédís, 26.5.2009 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.